Þú átt að ulla þegar einhver brosir til þín!

Þú átt að ulla þegar einhver brosir til þín!

  10.02.2017     adalheidur  

Hérna koma mjög mikilvæg skilaboð til þín sem vilt passa inn í samfélagskassann. 

Þú átt að ulla þegar einhver brosir til þín
Þú skalt hoppa eins hátt og þú getur þegar þú sérð einhvern gráta
Þú átt að segja segja halló þegar einhver ranghvolfir augunum
Þú átt að tvista þegar einhver spyr þig “hvað segir þú gott”?

og þetta er bara byrjunin…..

Mannstu allar þessar reglur?

Það er eins gott, því þessar reglur um félagsleg samskipti er mikilvægt að þú lærir.  Án þeirra munu ættingjarnir horfa á þig uppgjafaraugum og dæma þig illa upp alinn.  Það eru litlar líkur á að þú eignist vini og samfélagið allt mun hafna þér.

Það skiptir engu þó að þér finnist þessar reglur asnalegar og erfiðar.  Þú verður að leggja þig allan fram við að læra reglurnar, því annars passar þú ekki inn í samfélagið okkar.  Þú mátt ekki vera þú sjálfur - þú ert ekki nógu góður eins og þú ert.  Þú verður að leggja þig betur fram við að vera eins og hinir. 

Láttu nú ekki svona.
Einbeittu þér.
Þetta hefur þú nú gert áður.
Þú hlýtur að geta lært þetta?

-----

Má bjóða þér að alast upp með þessi skilaboð?

Hvers vegna er okkur svo mikið í mun að þjálfa fólk í að passa inn í kassann - hvað erum við hrædd við?

Hvaða heimsendir er það að einstaklingur svari hreinskilnislega að honum líki ekki maturinn í matarboðinu? Eða að hann nenni bara ekkert að spjalla?  Hvaða hörmungar fylgja því að barn horfi ekki í augun á þeim sem það talar við eða líki ekki við óundirbúna snertingu?

Af hverju má ég ekki bara vera ég sjálf?

Aðstoð og þjálfun er auðvitað af hinu góða svo lengi sem hún er uppbyggjandi og hvetjandi.  Það er eðlilegt að kynna einstaklinginn fyrir sjónarhornum meirihlutans - en mér þykir í raun jafn mikilvægt að kynna meirihlutanum fyrir sjónarhorni einstaklingsins.

Einmitt þetta er ein aðalforsenda þess að ég hóf Ég er unik verkefnið. Að skapa verkfæri fyrir einstaklinga, sem oft á tíðum passa ekki í samfélagskassann, til þess að gera þeim kleift að kynna sitt sjónarhorn, sínar upplifanir. Og af því við erum öll svo ólík, fannst mér mikilvægt að hver og einn gæti búið til sína frásögn.

Það eru allir jafn mikils virði í þessum heimi og við eigum að umgangast hvort annað með virðingu og kærleika.

Kærleikskveðjur
Aðalheiður

Tilbaka

Skrá mig á póstlista

Viltu fá sent á tölvupósti mánaðarlegt fréttabréf frá Ég er UNIK, fullt af fróðleik, innsýn og nýjungum?
Endilega skráðu þig hér fyrir neðan!


toTop