top of page

Ég er ofurmamma!


Ójá. 


Hafið þið ekki séð inspiration myndirnar í samfélagsmiðlum af einhverfu-mömmunum sem sigra heiminn, stundum jafnvel með skikkjur á bakinu, supermoms!  


Ég er ein af þeim, ég er stolt einhverfu-ofurmamma ...


… eða hvað?


Af hverju er ég OFUR?


Af því að ég kemst í gegnum daginn sem er fullur af skipulagningu, áreiti, stressi, gleði, hlátri, gráti, stolti, pirring og alls konar tilfinningum sem fylgja móðurhlutverkinu?


Þýðir það ekki bara að ég sé venjuleg mamma?  Eru þetta ekki allt tilfinningar sem allir foreldrar upplifa?


,,Ég gæti aldrei gert það sem þú gerir” hefur verið sagt við mig og það var meint sem hrós af góðhjartaðri manneskju til þess að hvetja mig á erfiðum degi.  Ég, í fórnalambshlutverkinu, tók því fagnandi á þeirri stundu en í dag gerir þessi setning mig hálf leiða fyrir hönd dóttur minnar.  Því þessi setning segir í raun:  Það er svo erfitt að vera mamma dóttur þinnar að ég gæti það aldrei.


Stöldrum aðeins og veltum fyrir okkur hvaða skilaboð við sendum til barnanna okkar þegar þau vaxa úr grasi og sjá þessar myndir á samfélagsmiðlunum.  Ætli þau hugsi með sér, var svona erfitt að vera mamma mín að þú þurftir á ofurkröftum að halda?


Ég geri mér fyllilega grein fyrir að þetta er meint sem hvatning til foreldra og trúið mér, við þurfum á hvatningu að halda - að vera foreldri er erfitt starf … það besta í heimi … en erfitt engu að síður.


Og það er einmitt málið!


Það er erfitt fyrir ALLA foreldra!


Nú ætla ég að vera hugrökk og viðurkenni að ég var fórnalamb. Ég gekk í gegnum erfiðan tíma, var sorgmædd og hrædd um framtíð barnsins míns og það hjálpaði mér að trúa að mér hafði verið úthlutað þessu verkefni því ég réði við það.  Lífið var flókið og erfitt og ég grét oft.  Mér fannst erfitt að fóta mig áfram og því tók ég fagnandi á móti myndum sem kölluðu mig ofurmömmu. 


Alveg þar til ég sá viðbrögð fullorðinna, einhverfra einstaklinga við slíkum skilaboðum og ég fór að horfa á hlutina í öðru ljósi.  Ég fattaði að ég er bara venjuleg mamma, sem er reyna að gera sitt besta fyrir barnið sitt.  og ef einhver væri OFUR, þá er það einmitt hún.


Það er HÚN sem virkilega upplifir ringulreið

Það er HÚN sem á hverjum degi leggur sig alla fram við að passa inn

Það er HÚN sem hefur annars konar skynjun sem stundum er óbærileg


Það er HÚN sem er ofurhetjan - og ég er side kick’ið.


Hrós er nauðsynlegt og við skulum aldrei hætta að hvetja hvort annað áfram. Pössum okkur bara að gera það ekki á kostnað annarra.


Ég vil miklu frekar heyra á erfiðum degi:  Mikið ertu heppin að vera mamma hennar, þú ert að standa þig ofsalega vel.


Kærleikskveðjur,

Aðalheiður

364 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page