top of page

Gleðifréttir!

Halló vinir,

Um nokkurt skeið hef ég verið að þróa áfram gagnvirka fræðslufyrirlesturinn minn um heim einhverfunnar og nú er svo komið að því að kynna hann fyrir skólum, leikskólum og öllum sem eru áhugasamir.


Í fyrirlestrinum fer ég með ykkur í ferðalag um heim einhverfunnar og leyfi ykkur að reyna á eigin líkama hvernig annars konar skynjun getur verið áskorun í dagsdaglegu lífi. Við fáum ekki aðeins fræðslu um HVAÐ er einhverfa og HVERNIG einkennin birtast, heldur einnig HVERS VEGNA. Því það er mín trú að til þess að ná sem bestum skilning, þarf að setja sig í spor annarra, eins vel og hægt er.


Í seinni hluta fyrirlestrarins segi ég frá mínu árangursríka samstarfi við skólann sem varð til þess að dóttir mín öðlaðist nýtt líf. Umræðuefni eins og tenglsamyndun og hvatning, að tækla erfiða hegðun og hugsa út fyrir kassann rísa hvað hæst. Fyrirlestrinum er ætlað að hvetja kennara áfram í sínu mikilvæga starfi.


Fyrirlestrinum er ætlað að vera skemmtilegur, persónulegur og hlý upplifun fyrir alla.

Gleðifréttirnar eru þær að þegar Blár Apríl, styrktafélag barna með einhverfu, frétti af þessum fyrirlestri leist þeim mjög vel á. Svo vel, að við höfum nú tekið höndum saman til að koma þessu einstaka fræðsluefni sem víðast. Blár Apríl leggur sitt að mörkum með því að niðurgreiða fyrirlesturinn verulega. Fyrirlesturinn varir í ca.einn og hálfan tíma og kostar nú aðeins 25.000 kr.Ég frumflutti fyrirlesturinn í Álfhólsskóla síðastliðið vor og hér má sjá umsögn frá þeim


"Við í Álfhólsskóla erum öll í hæstu hæðum með fyrirlesturinn Ég er unik. Aðalheiður náði til okkar allra og er nú þegar margbúið að vísa í fyrirlesturinn á vinnu- og samráðsfundum okkar á milli. Okkur fannst virkilega gott að fá góðar upplýsingar á mannamáli um einhverfu og hefur verið talað sérstaklega um hversu mikilvægt var að fá þetta tækifæri til þess að upplifa einhverfuna á eigin skinni. Við upplifum að við séum nú betur í stakk búin til þess að sýna einhverfum einstaklingum í okkar skólaumhverfi, og fleiri einstaklingum með hinar ýmsu raskanir, meiri skilning og þolinmæði. Það er svo gott að fá að vita og skilja hvað liggur að baki þegar einhverfir einstaklingar sýna hegðun og framkomu sem kann að virðast undarleg eða öfgafull í fyrstu. Við erum mjög þakklát fyrir þetta frábæra innlegg og fræðslu inn í okkar skólastarf og efumst ekki um að við komum til með að kalla í Aðalheiði aftur þegar það kemur tími á upprifjun og fræðslu á ný."

Sigrún Erla Ólafsdóttir

Deildarstjóri Álfhólsskóla


Ég hef núna opnað fyrir bókanir og þar sem ég er búsett í Noregi, þá framboðið af skornum skammti og gamla góða regla gildir; fyrstu kemur, fyrstur fær. Ég kem til landsins í viku 44 og 49 en henti þær vikur ekki, þá er um að gera að athuga með dagssetningar á vorönninni.


Endilega hjálpið mér að láta orðið berast með því að deila þessari færslu. Allar fyrirspurnir má senda á adalsig@egerunik.is


Kærleikskveðja,

Aðalheiður

1,957 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page