top of page

Öðruvísi dagar


Á hverju ári er Brosvika í norska skólanum okkar. Vika þar sem öllum rútínum er hvolfað, kennarar og nemendur dreifast út um allan skóla. Ekkert er á sínum stað og nemendum er hópað saman á öllum aldri að vinna ólík verkefni á ólíkum stöðum á ólíkum dögum. Sem sagt fullkomið kaos!

Fyrir flesta er þetta skemmtileg tilbreyting frá skólastarfinu, fyrir aðra er þetta hrein örvænting.

Ég þarf varla að taka það fram að Brosvika hefur ekki verið hátt skrifuð í okkar húsum og á hverju ári hefur ríkt mikill kvíði og erfiðar tilfinningar tengdar þessari viku.

En þetta árið ... kæru vinir ... hefur Brosvika gengið framar vonum.

Alla helgina bjó ég mig undir kvíðann en sunnudagskvöldið leið í mestu makindum og mánudagsmorguninn líka. Það var hugrökk og einstaklega dugleg ung stúlka sem kvaddi mömmu sína með þéttu faðmlagi síðastliðinn mánudagsmorgun og hélt svo ótrauð út í daginn.

Þvílík stakkaskipti sem hafa átt sér stað og má því þakka auknum skilning, aukinni viðurkenningu og bara almennt kærleika.

Í öllu kaosinu hefur hún alltaf sína "skólamömmu" til þess að leita til. Ef eitthvað verður henni ofviða, þá fær hún að draga sig tilbaka. Ef hlutirnir ganga ekki upp, þá er plan B sett í gang. Svo öryggið er fullkomlega til staðar í ringulreiðinni. Auðvitað er þetta krefjandi fyrir hetjuna mína, en hún hefur stuðninginn til þess að takast á við aðstæður.

Ég er einlægur aðdáandi skólastarfsfólks sem gerir alltaf ráð fyrir að nemandinn sé að gera sitt besta og bregst við á kærleiksríkan hátt við erfiðum aðstæðum. Þið eigið mína aðdáun alla og megið vita að þið breytið lífum til hins betra.

Hattinn af fyrir ykkur!


Kærleikskveðja

Aðalheiður

101 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page